Um það sem á daga mína drífur
|
Sunday, September 28, 2003
Þessi helgi var sko frábær. Í gær fórum við öll nema stóru strákarnir í afmæliveislu hjá Norðuráli. Ég fékk nammi, blöðrur, fór í hoppikastala, horfði á Skara skrípó og hlustaði í Birgittu syngja. Svo fékk ég grillaða pylsu og kók að drekka. Pabbi og mamma fóru með okkur suður og við fengum að heimsækja Þóru frænku. Ég vildi vera lengi af því að það tekur svo langan tíma að dulbúa leikinn með Sif en mamma segir reyndar að það rétt sé að segja undirbúa. Þóra frænka var svo góð við okkur Elís Dofra - hún var búin að prjóna tvenna vettlinga handa okkur báðum. Pabbi og mamma eru nefnilega agjörir klaufar og kunna ekki að prjóna. Nökkvi var okkar eina von lengi en hann er hættur að nenna því. Við fengum kvöldmat hjá Þóru og svo fórum við heim í Borgarnes. Í dag fékk ég að leika við Möggu en eftir hádegi fór ég með mömmu, pabba og Elísi Dofra í hjartagönguna. Við gengum lengi lengi og ég var orðin þreytt en mamma vildi alls ekki leyfa mér að fara með bílnum sem keyrði á eftir okkur. Hún sagði að ég hefði gott af því að labba, ég meina það sko þetta voru margir kílómetrar. Allir vorkenndu mér hvað ég átti leiðinlega og stranga mömmu. En þetta hafðist og ég er rosalega stolt yfir því að hafa gengið svona langt. Mamma er líka ágæt, ég elska hana mest af öllum. Í kvöld var ég rosalega dugleg og reif úr mér tönn númer tvö. Ég er svo sterk og dugleg stelpa!
skrifar at 3:25 PM
Saturday, September 20, 2003
Skólaganga mín hefur tekist ágætlega enn sem komið er. Á mánudögum æfi ég sund með sunddeild Skallagríms, á fimmtudögum er ég í kór og á föstudögum fer ég í píanótíma. Svo vill mamma endilega að ég fari að æfa fótbolta þegar æfingarnar byrja. Þegar skólinn er búinn á daginn fer ég í Skjólið og er þar til klukkan fjögur. Þar er ég að lita, föndra og leika við fullt að krökkum. Mér finnst gaman í Skjólinu og stundum fer ég út að leika. Mamma mín sækir mig nema á föstudögum þá er hún oftast að vinna lengur og pabbi sækir mig þá bara. Kennarinn minn heitir Magga og hún á heima í sveit. Maðurinn hennar Möggu er frændi minn og við höfum stundum heimsótt þau í sveitina. Mumma Lóa heitir kona sem kennir hinum bekknum en hún er næstum eins og kennarinn minn líka. Svo er aðstoðarfólk, þau Axel og Ása sem hjálpa börnunum líka í matnum og frímínútum.
|
|