Um það sem á daga mína drífur
|
Sunday, May 25, 2003
Ég sá pínulitla nýfædda kettlinga í dag. Mamma fór með mig út á Akranes því hún var að taka viðtal við einhvern kall og heima hjá honum var kisa með þrjá kettlinga. Þeir voru æðislega sætir og konan leyfði mér að halda á þeim. Ég myndi alveg vilja einn svona en mamma og pabbi eru ekkert voðalega mikið fyrir kisur. Þau vilja frekar hund segja þau en meina samt ekkert með því. Í gær var líka svaka gaman því Karen Ýr átti afmæli og var með veislu. En á morgun verður nú skrýtið því þá á ég að fara í vorskólann, ég fer bara með mömmu í vinnuna og á að hafa nesti og allt. Svo byrja ég líka á sundnámskeiði á morgun. Það er sko mikið að gera alltaf!!
skrifar at 11:53 AM
Friday, May 09, 2003
Mér finnst nú mamma stundum alveg hundleiðinleg. Hún er oft að skamma mig þegar ég er að siða hann Elís Dofra til. Hún vill t.d. ekki að ég sé að berja hann af en mér finnst bara allt í lagi að koma við hann þegar hann er að lemja mig. Svo held ég stundum að hún elski hann mest af öllum og það finnst mér fúlt af því ég er nú eina stelpan hennar. Hún er líka oft að banna mér ýmislegt en mér finnst sko allt í lagi að ég fái að gera fleira en hún leyfir mér. Til dæmis stelst ég stundum í kex og í morgun gaf ég Elísi Dofra líka. Svo fór hann að mylja niður kex og ég klagaði í mömmu. Þá spurði hún ,,hver var að gefa honum kex?" Ég svaraði ,,Ég bara man það ekki, ég er svo gleymin" - en ég sagði það nú bara svo hún færi ekki að skamma mig !!!
|
|